Gullbrá og fjölskylda senda kveðju í Kattholt

12 nóv, 2009

 
 

 

Mig langar að færa ykkur fréttir af læðunni sem ég ættleiddi frá ykkur í byrjun september.

 

Þegar hún kom heim í fyrsta sinn var hún mjög forvitin og skoðaði sig vel um.  Hún vildi alls ekki vera í öðru herbergi en mamma sín fyrsta mánuðinn og fylgir mér oft enn milli herbergja, en nú getur hún verið í öðru herbergi ef henni sjálfri langar til.  Hún vill samt oftast sofa nálægt mér.

 

Fyrst leið henni mjög vel en svo fór henni að líða illa yfir því að ég var að fara út og hún hefur verið með mjög mikinn aðskilnaðarkvíða, og ég reyndar líka.  Ég ætlaði að reyna að hafa hana sem innikisu, því ég var hrædd við allt það sem gæti komið fyrir hana.  En hún var orðin mjög, ja, þunglynd?  Hún lék sér við mig og sýndi stundum væntumþykju, en hún sýndi mér alltaf meira og meira hvað henni leiddist að fá ekki að fara út. Sama hversu mikið ég var heima og lék mikið við hana og knúsaði og klóraði.

 

Henni leið alls ekki vel að fá ekki að fara út. Þannig ég var í nokkrar vikur að manna mig upp í það. Ég var mjög kvíðin en stolt af mér að hafa mig út í þetta loksins.  Fyrst fór ég með henni út. Í 3 skipti fórum við í 30 mínútur –  1 og 1/2 klukkustund og fyrsta skipti sem við fórum út klifraði hún strax í trjánum og hljóp spennt á
milli nágranna húsanna að skoða sig um. Hún hitti nokkrar kisur líka. Einn fress sem ég hef heyrt að sé ljúfasti kötturinn í götunni hefur oft komið að húsinu að fylgjast með okkur.

 

Gullbrá hins vegar hvæsir til hans og eltir hann, en þetta er mikið stærri köttur en hún.  Ég vona samt að þau eigi eftir að vera vinir á endanum 🙂  það er eins og þau sæki í hvort annað þó þau hafa verið hvæsandi.  24. okt 09 fór ég með henni út, en stóð bara í garðinum og í götunni, ekki eins og áður þar sem ég var hoppandi yfir girðingar og reyna að halda í við hana. Sunnudaginn, daginn eftir, fékk hún svo að fara ein út.  Ég fylgdist vel með henni út um gluggana, og lokaði hana inni af og til, til þess að taka þessu rólega til að byrja með.

 

Hún kemur alltaf aftur inn. En eitt skipti þar sem hún var aðeins lengur en venjulega varð ég aftur stressuð og prófaði að lokka hana inn með því að láta skrjáfa í álpappír, en henni þykir mjög gaman að leika sér með kuðlaðan álpappír og filmuplast.

 

 

  • Hún kemur oft inn til að gera þarfir sínar.
  • Hún kemur oft með lauf inn og einu sinni kom ormur með því.
  • Ég losaði mig strax við orminn en ég hef stundum leikið við hana með laufunum. jafnvel bundið þau við band og dregið eftir gólfinu. Hún hleypur á eftir eins hratt og fætur toga.  Einn daginn var hún í miklu stuði að koma með dót inn og kom með frauðplast, viðarbút, nammipoka og vírflaggstöng ásamt helling af laufum og stundum munnfylli.
  • Þegar bílar keyra framhjá kemur ljós á vegginn í íbúðinni. Þá kippist hún til og hleypur að staðnum þar sem ljósið kom fram og starir á hann og dillar skottinu í smástund.
  • Þegar hún kom hingað í fyrsta sinn var hún rosalega hrifin af blaðakörfunni minni. Nuddaði sér upp við hana og klóraði. Ég tók blöðin úr og gaf henni körfuna. Það er svo gaman að sjá hana leika sér í henni. Nýtur sín í botn.  Nú er karfan hálfgerður felustaður og lárétt klóra fyrir hana.
  • Hún átti ekkert sérstakt rúm en fékk notað rúm eftir um það bil mánuð. Ég hreinsaði hárin af og bauð henni svo að liggja í því. Hún hefur kannski fundið lyktina en ég setti hana í þvottavél samt. Svo setti ég teppi yfir það sem hún hefur legið á áður og núna sefur hún mjög oft í rúminu. En stundum sefur hún í rúminu hjá mér.
  • Hún „baðar“ mig alltaf eitthvað á hverjum degi, þá hendurnar og smá andlitið 😉  Þá meina ég ekki smá koss heldur kerfisbundið að taka hendina fyrir haha.
  • Nágranni minn hefur tekið sig til og soðið fisk og gefið henni í leiðinni, Gullbrá og mér til mikillar gleði. Hún elskar soðna ýsu og á erfitt með að bíða eftir að fá bitann sinn.  Það hefur komið fyrir að ég hef lagt pokann frá mér og gleymt honum í smá stund, þá er hún búin að ná í hann og komin upp í sófa.
  • Þegar hún er inni í lengri tíma loka ég gluggunum og tek ólina af. Hún elskar að fá smá hálsnudd þegar ólin fer af og hvíla sig aðeins á henni.

 

Hún er komin með báðar bólusetningar og ég lét eyrnamerkja hana, en eyrnamerkingin er farin að deyfast aðeins. Það sést allavega að hún sé eyrnamerkt.  Þá reddast það með örmerkingunni. 🙂 Hún er bæði með hólk og spjald á ólinni, þannig hún er eins vel merkt og hægt er. Það eina sem vantar er endurskinsmerki á ólina ;).

 

Hún hefur verið með niðurgang í svolítinn tíma og þegar ég fór með hana í bólusetninguna fékk ég hægðalyf en það virðist ekki virka.  Ég er tvisvar búin að mauksjóða grjón með smá teningi, kjúklinga soð fyrst með smá kjúkling, svo fisksoð með smá fisk, fiskurinn heppnaðist betur því þetta varð eins og þykkur grjónagrautur, ég notaði líka smá „duft“ af harðfiski sem krydd haha. Ég er búin að skipta úr Techni Cal Adult í Royal Canin Kitten. En ég fattaði ekki að athuga með það þegar ég keypti fóður í fyrsta sinn, að kettlingafóður er alveg til 1 árs. Fyrst hafnaði hún alveg Royal Canin, en það virðist sem það hafi bara verið þrjóska og hún vildi blautmat frekar, því núna er hún farin að klára heila skammta og spennt fyrir matnum.

 

Gullbrá er mjög líklega með astma (eða eitthvað ofnæmi?) og fyrst var ég svolítið smeik við það en þetta er ekki alvarlegt eins og er, og ég sé minna af þessu núna.

Ég ákvað að stofna YouTube fyrir myndbönd og myndir af henni.
http://www.youtube.com/user/Gullbra1Kisa þetta er slóðin.
(Til þess að sjá öll myndböndin, til vinstri er „Uploads“ og þar fyrir neðan er „see all“.
Ef þið veljið „see all“ þá sjáið þið öll myndböndin sem ég hef sett inn og getið valið um hvað þið viljið skoða)

http://www.youtube.com/watch?v=S7MBG-tPj90
en þetta myndband er það fyrsta og sýnir hana í byrjun koma heim í fyrsta sinn og í lokin fá að fara út og klifra í trjánum, þar á milli að leika sér.

Kær kveðja,
Andrea og Gullbrá.
(örmerkt 352098100024660)