Gagnlegar upplýsingar

Fólki ber að tilkynna um dýr í neyð

Í nýjum lögum um velferð dýra segir:

8. gr. Tilkynningarskylda.
Leiki grunur á að meðferð á dýrum brjóti gegn lögum þessum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim skal sá sem verður þess var tilkynna það Matvælastofnun eða lögreglu svo fljótt sem auðið er. Sé mál tilkynnt lögreglu skal hún tilkynna Matvælastofnun um það. Matvælastofnun skal kanna hvort tilkynning sé á rökum reist.
Tilkynnandi skv. 1. mgr. getur óskað eftir því að nafni hans verði haldið leyndu gagnvart öðrum en Matvælastofnun eða lögreglu. Ef líklegt má telja að hagsmunir viðkomandi skaðist ef greint er frá nafni hans skal fallast á ósk um nafnleynd. Ef ekki eru forsendur til þess að fallast á nafnleynd er tilkynnanda heimilt að draga tilkynningu sína til baka. Ákvörðun Matvælastofnunar um nafnleynd er heimilt að skjóta til ráðherra innan tveggja vikna frá tilkynningu ákvörðunar. Leiðbeina skal tilkynnanda um rétt hans til að kæra ákvörðun Matvælastofnunar.

9. gr. Tilkynningarskylda þeirra sem hafa afskipti af dýrum.
Hverjum þeim sem stöðu sinnar og starfa vegna hefur afskipti af málum dýra og verður var við aðstæður eins og lýst er í 1. mgr. 8. gr. er skylt að tilkynna það Matvælastofnun.
Sérstaklega er dýralæknum og heilbrigðisstarfsmönnum dýra skylt að fylgjast með meðferð dýra, aðbúnaði dýra, aðgerðum og meðhöndlun dýra, dýrahaldi, aðferðum við dýrahald og útbúnaði dýra eftir því sem við verður komið og gera Matvælastofnun viðvart ef ætla má að aðstæður dýrs séu með þeim hætti sem lýst er í 1. mgr. 8. gr.
Tilkynningarskylda samkvæmt þessari grein gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta.

10. gr. Geta, hæfni og ábyrgð.
Hver sá sem hefur dýr í umsjá sinni skal búa yfir eða afla sér grunnþekkingar á þörfum og umönnun viðkomandi dýrategundar og skal enn fremur búa yfir nægjanlegri getu til að annast dýrið í samræmi við lög þessi.

Lög um velferð dýra.

Brýnt að örmerkja og skrá

Þann 1. janúar sl. tóku gildi ný lög um velferð dýra. Kattaeigendum er nú skylt að einstaklingsmerkja kettina sína (22. gr. laga um velferð dýra). Kettir sem eru ekki merktir í samræmi við 22. gr. og ganga lausir eru skilgreindir sem hálfvilltir.

Eftir tvo sólarhringa frá handsömun er sveitarfélagi heimilt að ráðstafa hálfvilltu dýri til nýs eiganda, selja það gegn áföllnum kostnaði eða aflífa án bóta (24. gr.).

Mikilvægt er að hafa einnig ólar og merkispjöld á útiköttum. Slík merking er þó ekki nægileg og ómerkt dýr (hvorki ör-né eyrnamerkt) er skilgreint sem hálfvillt. Það hefur því aldrei verið jafn mikilvægt og nú að örmerkja!

Ekki nægir að örmerkja dýrin svo þau komist fljótt til skila ef þau týnast. Einnig er nauðsynlegt að skrá dýrið í miðlægan gagnagrunn, dyraaudkenni.is. Að örmerkja dýr en skrá það ekki í gagnagrunninn veitir ekki fullkomið öryggi á að dýrið komist til skila. Með því að hafa dýrið skráð ætti það að komast fljótt aftur til síns heima. Skrásetning í gagnagrunninn er ódýr og fer fram hjá dýralækni.

Við hvetjum kattaeigendur sem eiga eftir að örmerkja og skrá kettina að huga að því sem fyrst.

Ný lög um velferð dýra: http://www.althingi.is/lagas/141b/2013055.html

Staðreyndir um ógelda fressketti

Eitt af því mikilvægasta sem þú getur gert fyrir köttinn þinn, aðra
ketti og samfélagið er að gelda læðuna þína eða fressinn. Á Íslandi er
fjöldi katta og kettlinga í leit að nýjum heimilum, en ólíklegt er að
þau fái öll heimili. Kettirnir eru miklu fleiri en heimilin sem standa
til boða. Ein leið til að fækka heimilislausum dýrum er að draga úr
óskipulögðum gotum með ófrjósemisaðgerðum á læðum og fressum. Kettir ná
fljótt kynþroska (alveg niður í fjögurra mánaða) og þeir geta fjölgað
sér með hvaða frjóum ketti sem er af hinu kyninu.
Gelding/ófrjósemisaðgerð hefur líka marga heilsufarslega kosti í för með
sér og gerir sambúð manns og kattar betri.

 Staðreyndir um ógelda fressketti

  • Hann
    hverfur gjarnan í marga daga í senn í leit að breimandi læðu. Þetta
    eykur líkurnar á því að hann verði fyrir bíl eða týnist.
  • Óðal
    ógeldra fressa er iðulega mun stærra en geldra og eyða þeir miklum tíma í
    að fara um það. Jafnframt verja þeir svæðið sitt af mikilli hörku
    gagnvart öðrum köttum. Þeir slasast iðulega við þessi átök.
  • Högnar merkja óðöl sín oft með hlandi sem er afar lyktarsterkt.
  • Hann
    veldur því að fjöldi læða verður kettlingafullar og gjóta kettlingum
    sem verða mögulega svæfðir vegna þess að ekki finnast heimili fyrir þá.

Gelding
hefur hvorki áhrif á skapgerð né hegðun fresskattarins gagnvart
eigendanum. Við geldingu verða þó þær breytingar að fresskettir verða
ekki eins uppteknir af því að verja svæði sín eins og ógeltir kettir.
Þeir verða einnig heimakærari og lifa oft lengra og áhyggjulausara lífi
þar sem þeir þurfa ekki að berjast sífellt fyrir lífi sínu. Gelding á
fressköttum er einföld aðgerð þar sem eistun eru fjarlægð. Kötturinn fær
að fara heim samdægurs. Best er að gera verðsamanburð á dýralæknstofum
og eru stundum tilboð í gangi.

Staðreyndir um ógeldar læður
Eitt af því mikilvægasta sem þú getur gert fyrir köttinn þinn, aðra
ketti og samfélagið er að gelda læðuna þína eða fressinn. Á Íslandi er
fjöldi katta og kettlinga í leit að nýjum heimilum, en ólíklegt er að
þau fái öll heimili. Kettirnir eru miklu fleiri en heimilin sem standa
til boða. Ein leið til að fækka heimilislausum dýrum er að draga úr
óskipulögðum gotum með ófrjósemisaðgerðum á læðum og fressum. Kettir ná
fljótt kynþroska (alveg niður í fjögurra mánaða) og þeir geta fjölgað
sér með hvaða frjóum ketti sem er af hinu kyninu.
Gelding/ófrjósemisaðgerð hefur líka marga heilsufarslega kosti í för með
sér og gerir sambúð manns og kattar betri.
Staðreyndir um ógeldar læður
    • Hún getur orðið kettlingafull 4-5 mánaða.
    • Hún getur
      borið ábyrgð á 20.000 afkomendum á aðeins fimm árum! Þá er ekki aðeins
      talað um hennar kettlinga, heldur kettlingana sem hennar afkvæmi eiga
      o.s.v.
    • Það er útbreiddur misskilningur að læður þurfi að eiga
      kettlinga einu sinni áður en þær eru teknar úr sambandi. Læðan mun ekki
      sakna þess að hafa aldrei eignast kettlinga.
    • Læðan getur átt
      kettlinga tvisvar til þrisvar á ári og er þetta ákaflega mikið álag á
      hana. Læða getur orðið kettlingafull 10 dögum eftir got.
  • Læðan verður fljótt kettlingafull ef hún fær að ganga laus úti. Þrátt fyrir að
    vera inniköttur þá dregur hún ógelda fressketti að heimilinu þegar hún
    breimar. Þá er möguleiki á að hún sleppi úti eða fressköttur inn. 
Ófrjósemisaðgerðin
hefur hvorki áhrif á skapgerð né hegðun læðunnar gagnvart eigandanum.
Með ófrjósemisaðgerð hættir læðan að breima og verður heimakærari. Í
boði er að fá pilluna fyrir læðuna en ófrjósemisaðgerðin er varanleg
lausn og er hún einföld þó inngripið sé meira en hjá fressunum. Læðan
fer heim til sín samdægurs. Best er að gera verðsamanburð á
dýralæknstofum og eru stundum tilboð í gangi.
Hvað get ég gert ef kötturinn minn týnist?

Er kötturinn þinn örmerktur? Til þess að auka líkurnar á að týndur köttur komist heim er mikilvægt að hann sé örmerktur. Örmerki, sem er á stærð við hrísgrjón, er skotið undir húð á milli herðablaða kattarins. Einnig er mikilvægt að útikettir jafnt sem innikettir séu með merkta ól með upplýsingum um heimilisfang og símanúmer eiganda. Ólar geta dottið af, því þarf líka að örmerkja kettina.

Þegar örmerktur köttur fær nýjan eiganda er mikilvægt að breyta skráningu á örmerki. Í flestum tilfellum er það fyrri eigandi sem þarf að láta breyta skráningunni. Þetta er mikilvægt atriði svo hægt sé að ná sambandi við réttan aðila. Dýraauðkenni.is er miðlægur gagnagrunnur og geymir örmerkingu og eyrnamerkingu dýra. Skrásetning er ódýr og fer fram hjá dýralækni.

Týnist kötturinn þinn er gagnlegt að fylgja eftirfarandi sex þrepum:

1) Er hann inni?

Hljómar kjánalega, en í mörgum tilfellum þegar kettir hverfa, finnast þeir heima hjá sér. Kettir eru forvitnir og geta átt það til að troða sér á ólíklegustu staði. Athugaðu alla þá staði þar sem hann gæti hafa lokast inni.

2) Kannaðu umhverfi þitt

Leitaðu í bílskúrnum þínum, geymslu og garði.

3) Talaðu við nágrannanna

Gakktu um hverfið og láttu nágrannanna vita að kötturinn þinn sé týndur. Biddu þá um að gá í geymslu, bílskúr og garð. Gagnlegt er að prenta út auglýsingu með mynd af kettinum og helstu upplýsingum um hann, svo sem lit á feldi, merkingu (örmerki og/eða ól), hvaðan og hvenær hann týndist og símanúmer eiganda.

4) Hafðu samband við Kattholt og dýralæknastofur

Þú getur sent tölvupóst á kattholt@kattholt.is með helstu upplýsingum og mynd af kettinum. Þá er hægt að birta auglýsingu undir „týndar- og fundnar kisur” á heimasíðunni, kattholt.is.

Á heimasíðunni eru myndir af öllum þeim köttum sem koma í Kattholt. Upplýsingarnar um kettina eru settar inn samdægurs. Í Kattholti er skanni sem les örmerki. Þegar óskilaköttur kemur í Kattholt er strax athugað hvort hann sé ör- og/eða eyrnamerktur. Til að auðvelda leit að eiganda er gagnlegt að kötturinn sé skráður á dyraaudkenni.is sem er miðlægur gagnagrunnur og geymir örmerkingu og eyrnamerkingu dýra. Skrásetning er ódýr og fer fram hjá dýralækni.

Hafðu samband við dýralæknastofur í þínu nágrenni til að spyrjast fyrir um köttinn þinn, hvort hann hafi mögulega komið slasaður eða dáinn.

5) Auglýstu eftir kettinum þínum á netinu

Hægt er að senda Dýrahjálp auglýsingu til að birta á heimasíðunni þeirra. Kattholt er á Facebook. Auglýstu líka á kattartengdum síðum á Facebook eins og „Kattavaktin” og „Týnd/Fundin dýr”. Dýraeigendur á Akureyri geta auglýst á Facebook síðu Kisukots.

6) Auglýstu í hverfisverslunum

Settu upp auglýsingar í hverfisverslunum. Hafir þú nýlega flutt er gott að setja upp auglýsingar í gamla hverfinu ef ske kynni að kötturinn leiti aftur þangað.

Við viljum minna kattaeigendur á mikilvægi þess að örmerkja og/eða eyrnamerkja dýrin. Einnig er mjög gagnlegt að setja á þau merkta ól.

Munið að gelda eða taka kettina úr sambandi, því ógeld dýr eru líklegri til að fara á flakk og týnast.

Heimild: Watson, Rebecca (2010). The cat expert.

Hvað er dýraauðkenni.is?

Dýraauðkenni.is er miðlægur gagnagrunnur sem geymir ör- og eyrnamerkingu dýra. Skrásetning er ódýr og fer fram hjá dýralækni. Dýrauðkenni kemur að góðum notum hvort sem dýrið þitt týnist eða þú finnur týnt dýr. Ef dýrið er örmerkt og skráð í miðlægan gagnagrunn kemst það yfirleitt fljótt til skila. Þegar óskilaköttur kemur í Kattholt kanna starfsmenn hvort dýrið sé ör- og/eða eyrnamerkt. Sé dýrið merkt skrá þeir númerið á merkingunni inn í gagnagrunninn. Þá koma upp helstu upplýsingar um viðkomandi dýr og hvernig hægt er að ná í eiganda þess. Sé dýrið örmerkt en ekki skráð í Dýraauðkenni getur verið flóknara að hafa upp á eiganda, því hafa þarf samband við dýralæknastofur til að komast að því hvar dýrið er skráð. Finnist eyrnamerkt dýr getur finnandi skráð inn númerið á merkingunni í gagnagrunninn og fundið upplýsingar um eiganda. Dýrið kemst þá fljótt til skila. Nánari upplýsingar um Dýraauðkenni eru á heimasíðunni dýraauðkenni.is.

Hvað er dýraauðkenni.is?

Dýraauðkenni.is er miðlægur gagnagrunnur sem geymir ör- og eyrnamerkingu dýra. Skrásetning er ódýr og fer fram hjá dýralækni. Dýrauðkenni kemur að góðum notum hvort sem dýrið þitt týnist eða þú finnur týnt dýr. Ef dýrið er örmerkt og skráð í miðlægan gagnagrunn kemst það yfirleitt fljótt til skila. Þegar óskilaköttur kemur í Kattholt kanna starfsmenn hvort dýrið sé ör- og/eða eyrnamerkt. Sé dýrið merkt skrá þeir númerið á merkingunni inn í gagnagrunninn. Þá koma upp helstu upplýsingar um viðkomandi dýr og hvernig hægt er að ná í eiganda þess. Sé dýrið örmerkt en ekki skráð í Dýraauðkenni getur verið flóknara að hafa upp á eiganda, því hafa þarf samband við dýralæknastofur til að komast að því hvar dýrið er skráð. Finnist eyrnamerkt dýr getur finnandi skráð inn númerið á merkingunni í gagnagrunninn og fundið upplýsingar um eiganda. Dýrið kemst þá fljótt til skila. Nánari upplýsingar um Dýraauðkenni eru á heimasíðunni dýraauðkenni.is.

Að taka kött úr Kattholti

Kisur í heimilisleit eru sýndar eftir hádegi á virkum dögum á fyrirfram bókuðum tíma. Bókun fer fram símleiðis milli kl. 9-12 á virkum dögum í síma 567-2909 eða í gegnum tölvupóst á kattholt@kattholt.is.

Vinsamlegast athugið að kisurnar eru aðeins sýndar þeim sem ætla að taka að sér kisu á heimili.

Þegar köttur fer á nýtt heimili frá Kattholti þá greiðir nýr eigandi fyrir ófrjósemisaðgerð,
ormahreinsun, örmerkingu og skráningu og 1. bólusetningu, samtals kr. 24.500-.

Kettir í heimilisleit eru auglýstir undir kisurnar> kisur í heimilisleit á
heimasíðu. Dýraspítalinn í Víðidal sér um dýralæknaþjónustu fyrir Kattholt.

Að taka að sér nýjan fjölskyldumeðlim

Að eignast kött getur stundum verið fyrir hálfgerða tilviljun. Fólk fellur fyrir þessum loðnu fjörboltum í gleði augnabliksins og gleymir því, að með þessum nýja heimilisvin fylgir ákveðin ábyrgð og skyldur gagnvart bæði kisunni og samfélaginu í kring. Alltof oft reynist þessi áhugi aðeins tímabundinn og kettlingurinn nær vart að verða fullorðinn áður en hann er orðinn “fyrir” á heimilinu. Mundu, að kettir geta náð háum aldri og þurfa allan tímann á umönnun og ástúð að halda. Ef þú ert ákveðinn í að fá þér kött er ástæða fyrir þig að íhuga gaumgæfilega hvaða kattategund þig langar í – snöggan eða loðinn, hreinræktaðan eða húskött o.s.frv. Það getur komið í veg fyrir vonbrigði síðar meir, t.d. hvað varðar skapgerð og þrifnað.

Hanna M Árnadóttir dýralæknir
Dýralæknastofan í Garðabæ

Hvaðan á ég að taka kettling?

Ef þú ákveður að fá þér hreinræktaðan kettling þarftu að hafa upp á ræktanda og vera viðbúinn því að borga töluverða upphæð fyrir hann. Óbreytta húsketti er auðvelt að nálgast, bæði í Kattholti, á dýralæknastofum og í smáauglýsingum dagblaðanna. Því miður hefur ekki skapast hefð fyrir því hérlendis að gefa ekki dýr og því sjaldan krafist borgunar fyrir kettlingana. Það ætti að vera bannað að auglýsa dýr gefins að dómi undirritaðrar. Hvað sem úr verður, hreinræktaður eðalköttur eða óbreyttur götuprins þá er mikilvægt að fá að sjá læðuna og hin systkinin svo og þær umhverfisaðstæður sem kettlingur ólst upp við. Það getur haft mikið að segja um skapgerð og hegðun kattarins seinna í lífinu.

Hanna M Árnadóttir dýralæknir
Dýralæknastofan í Garðabæ

Hvernig veit ég hvort kettlingurinn er heilbrigður

Ef kettlingurinn sem þú tekur er þegar sjúkur, er óvíst hvort hann nái fullri heilsu á ný og meðferð getur verið kostnaðarsöm. Heilbrigður kettlingur er með skýr og tær augu, hreinar nasir og mjúkan og hreinan feld. Ef kisi litli er síhnerrandi, með augnleka eða það rennur úr nösum hans er líklegt að hann sé með öndunarfærasýkingu. Ef þriðja augnlokið (himna niðri í augnkróknum nær trýninu) er sýnileg eða feldurinn er mattur og þurr eru það einnig einkenni á veikindum. Skítug eyru geta verið einkenni á sýkingu með eyrnamaur eða bakteríum og horaðir kettlingar með mikla vömb eru líklegast með mikla ormasýkingu. Ef þú ert í einhverjum vafa, fáðu þá að láta dýralækni skoða kettlinginn áður en þú ákveður að taka hann.

Hanna M Árnadóttir dýralæknir
Dýralæknastofan í Garðabæ

Hvaða einkenni segja til um gott skapferli?

Eðlilegur kettlingur á að vera fjörugur, uppfullur af leik og sáttur við tilveru og snertingu mannfólksins. Það er ekki gott ef kettlingurinn hleypur burtu og felur sig eða virðist sljór og hálfsofandi allan tímann. Ekki má þó gleyma því að kettlingar sofa mikið fyrstu mánuði lífs síns en bregða þó á ærslafullan leik á milli. Kettlingur sem hefur verið í návist við mannfólk og jafnvel önnur dýr fyrstu 8 vikur lífs síns mun eiga auðveldara með að takast á við nýjar aðstæður og eigendur en sá sem hefur alist upp í þögulli einangrun. Forðist að taka taugaveiklaða kettlinga -líka þótt þið vorkennið honum. Ólóklegt er að þannig kettir verði þessi vinalegi og ljúfi köttur sem flest fólk sækist eftir. Veldu þér kettling sem hentar lífstíl þínum. Ef þú átt börn eða hund er gott að velja kettling sem hefur reynslu af slíku frá uppeldi sínu.

Hanna M Árnadóttir dýralæknir
Dýralæknastofan í Garðabæ

Hvað þarf ég að vita áður en ég fæ kettling?

Áður en þú sækir kettlinginn skaltu athuga hvaða meðferð hann hefur fengið. Kettlingar geta farið frá móður sinni frá 8 vikna aldri og flestir húskettir hafa ekki verið bólusettir á þeim tíma. Ef þú ert að fá þér hreinræktaðan kettling er hann oftast ekki afhentur fyrr en við 12 vikna aldur og hefur þá að venju verið bólusettur að hluta. Fáðu upplýsingar um hvað hefur verið gert fyrir hann og þú ættir að fá afhent bólusetningarskírteini undirritað af dýralækni svo og ættbók kettlingsins. Fáðu einnig upplýsingar um hvort gefin hafi verið ormalyf og hvaða fóður kettlingurinn hefur fengið. Fóðraðu hann með sama fóðri fyrstu dagana og ef ástæða þykir til að skipta um fóður, skiptu þá hægt og rólega yfir í nýjar fóðurtegundir til að forðast meltingartruflanir eins og niðurgang og uppköst.

Hanna M Árnadóttir dýralæknir
Dýralæknastofan í Garðabæ

Fyrstu dagarnir með nýjan kött á heimilinu

Það er eðlilega stressandi fyrir kettlinginn að vera skyndilega tekinn frá móður sinni og systkinum. Algengt er að þeir fái dálítinn niðurgang á fyrstu dögunum en oftast jafnar það sig af sjálfu sér. Mikilvægt er að kettlingurinn fái næga athygli og kærleika meðan hann er að venjast nýja heimilinu sínu. Varist að setja matarskálarnar of nálægt pissukassanum þar sem það getur gert hann fráhverfan honum og hann vanið sig á nýja salernissiði í óþökk við heimilisfólkið. Ef ung börn eru á heimilinu þarf að gera þeim grein fyrir að kettlingurinn er ekki leikfang og gæta þess að þau leiki ekki við hann nema undir eftirliti fullorðinna. Slysin eru fljót að gerast. ráðlegt er að halda kettlingnum innandyra í a.m.k. 2 vikur eða þar til hann er fullbólusettur.

Hanna M Árnadóttir dýralæknir
Dýralæknastofan í Garðabæ

Önnur gæludýr á heimilinu

Halda þarf kettlingnum frá öðrum heimilisköttum nema þeir séu fullbólusettir og heilbrigðir. Þegar kisi litli hittir hin heimilisdýrin í fyrsta skipti er ágætt að hann sé í búri þar sem honum finnst hann öruggur og hin dýrin geta aðeins lyktað af honum en ekki snert hann. Í flestum tilfellum gengur sambúðin vel og áfallalaust fyrir sig.

Hanna M Árnadóttir dýralæknir
Dýralæknastofan í Garðabæ

Heilsugæsla Katta

Gæta þarf þess að fara með köttinn reglulega í skoðun til dýralæknis, a.m.k. einu sinni á ári. Ráðlegt er að ormahreinsa köttinn á 3-4 mánaða fresti ef kisi er mikið úti við en annars er nægjanlegt 1-2x á ári. Grunnbólusetning gegn kattainflúensu og kattafári fer fram 2svar í fyrsta skipti, með 4 vikna millibili og síðan er bólusett árlega einu sinni. Ef um loðinn kött er að ræða, þarf að kemba honum daglega svo ekki myndist flókar en snögghærðir kettir þurfa minni feldhirðu. Svo þarf að íhuga hvað skal gera þegar kisi nær kynþroska. Kynþroska er oftast náð við 6-8 mánaða aldur en getur verið breytilegt eftir tegund og eftir því á hvaða tíma ársins kettlingurinn er fæddur.

Því miður er það útbreiddur misskilningur að læður þurfi að eiga kettlinga einu sinni á ævinni. Það er einungis til að auka á vandann hvað varðar fjölda heimilislausra katta og aflífanir á óæskilegum kettlingum ár hvert. Hægt er að setja læðu á pilluna eða gera á þeim varanlega ófrjósemisaðgerð og högnar eru geltir. Samtímis er ráðlegt að láta merkja kettina í eyrun með húðflúri. Kettir eiga alltaf að bera ól með merkispjaldi þegar þeir eru utandyra og koma má í veg fyrir nágrannadeilur með því að takmarka útivist katta þannig að þeir séu ekki að ónáða aðra íbúa hverfisins með næturbrölti sínu. Að eiga kött er skuldbinding og enginn ætti að fá sér þetta skemmtilega heimilisdýr nema vera tilbúinn til að axla þá ábyrgð sem því fylgir.

Hanna M Árnadóttir dýralæknir
Dýralæknastofan í Garðabæ