Ég hef persónulega notið góðs af þjónustu Kattholt.

13 maí, 2010




kottur_990056.jpg Í gegnum árin hafa alltaf af og til borist fréttir af vondri fjárhagsstöðu Kattholts sem Sigríður Heiðberg hefur barist fyrir að halda starfandi.


Víst er að Kattholt er fyrir löngu búið að sanna tilverurétt sinn.


Þangað geta allir komið með týnda ketti og ófáir hafa fundið kettina sína þar í gegnum árin, auk þess sem Kattholt býður upp á geymslu (hótel) fyrir ketti þegar fólk sem þarf að bregða sér frá getur ekki skilið þá eina eftir heima.


Ég hef persónulega notið góðs af þjónustu Kattholts í mörg ár, hef bæði farið þangað til að endurheimta týnda ketti, til að taka að mér ketti auk þess sem ég hef notað „hótelið“. Fyrir þessa þjónustu hef ég greitt sanngjarnt gjald. Sjálfur má ég því ekki til þess hugsa að sú starfsemi sem þarna fer fram leggist af.


Hins vegar hef ég aldrei skilið eitt í sambandi við þetta allt saman, þ.e. rekstrarstöðu Kattholts sem virðist alltaf þurfa að leita til opinberra aðila eftir stuðningi við misjafnar undirtektir:


Hvers vegna bera kattareigendur í þéttbýli ekki sömu skyldur og hundaeigendur?


Hvers vegna er kattareigendum ekki gert skylt að skrá ketti sína og merkja þá?


Og hvers vegna þurfa kattareigendur ekki að greiða leyfisgjald rétt eins og hundaeigendur?


Ég er alveg viss um að ábyrgir kattareigendur myndu alls ekki telja það eftir sér að greiða gjald fyrir kattaleyfi sem gæti þá runnið í að gulltryggja starfsemi eins og þá sem Kattholt heldur úti.


Þess utan myndi skráningarskylda, greiðsluskylda og örmerking leiða til þess að óábyrgum kattareigendum fækkaði verulega … fólki sem fær sér kettlinga af því þeir eru svo sætir (eða sem leikföng fyrir börnin) en hendir þeim síðan bara út á guð og gaddinn seinna meir … fólki sem lætur ekki gelda kettina sína og stuðlar þar með að óæskilegri og óábyrgri fjölgun þeirra … fólki sem kann hreint og beint ekkert að hugsa um ketti.


Hvað er svona erfitt við að samþykkja að héðan í frá skuli allir sem halda ketti skrá þá, örmerkja, gelda (nema á undanþágu) og greiða leyfisgjald.


Ég hugsa að allir ábyrgir kattareigendur myndu fagna slíkum reglum því fátt fer meira í taugarnar á okkur en fólk sem fær sér dýr en fer síðan illa með þau og kemur óorði á alla hina … en slíkum tilfellum myndu svona reglur örugglega fækka til muna.


… Og auk þess tryggja fjárhagsstöðugleika Kattholts. 









mbl.is Kattholt í vanda

Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt