Brýnt að örmerkja og skrá ketti

7 Jan, 2014

Þann 1. janúar sl. tóku gildi ný lög um velferð dýra.
Kattaeigendum er nú skylt að einstaklingsmerkja kettina sína (22. gr. laga um
velferð dýra). Kettir sem eru ekki merktir í samræmi við 22. gr. og ganga lausir
eru skilgreindir sem hálfvilltir.

Eftir tvo sólarhringa frá handsömun er sveitarfélagi heimilt
að ráðstafa hálfvilltu dýri til nýs eiganda, selja það gegn áföllnum kostnaði
eða aflífa án bóta (24. gr.).

Mikilvægt er að hafa einnig ólar og merkispjöld á útiköttum.
Slík merking er þó ekki nægileg og ómerkt dýr (hvorki ör-né eyrnamerkt) er
skilgreint sem hálfvillt. Það hefur því aldrei verið jafn mikilvægt og nú að
örmerkja!

Ekki nægir að örmerkja dýrin svo þau komist fljótt til skila
ef þau týnast. Einnig er nauðsynlegt að skrá dýrið í miðlægan gagnagrunn,
dyraaudkenni.is. Að örmerkja dýr en skrá það ekki í gagnagrunninn veitir ekki fullkomið
öryggi á að dýrið komist til skila. Með því að hafa dýrið skráð ætti það að
komast fljótt aftur til síns heima. Skrásetning í gagnagrunninn er ódýr og fer
fram hjá dýralækni.

Við hvetjum kattaeigendur sem eiga eftir að örmerkja og skrá
kettina að huga að því sem fyrst.