Þegar Kattavinafélag Íslands varð að veruleika árið 1976, fóru Svanlaug Löve, aðalhvatamaður að stofnun þess og maður hennar Gunnar Pétursson, að taka óskilaketti inn á heimili sitt. Ljóst var að þörfin fyrir slíkt var mikil og sömuleiðis vantaði örugga gæslu á köttum, þegar eigendur brugðu sér tímabundið af bæ. Þá varð til hugmynd að stofnun athvarfs á vegum félagsins, sem heita skildi Kattholt og fljótlega var hafist handa við að safna fé til framkvæmda.
Arkitekt var fenginn til að teikna hús undir starfsemina og hún send borgarráði með umsókn um lóð.
Í svarbréfi borgarráðs dagsettu 29. september 1982 segir:
„Á fundi borgarráðs í gær var samþykkt að gefa Kattavinafélagi Íslands kost á ca 1900 m² lóð í Ártúnsholti fyrir vist- og hjúkrunarheimili fyrir ketti, sbr. teikningu Knúts Jeppesen, dags. 10. júní 1982, í m 1:1000.“
Nú voru hendur látnar standa fram úr ermum og bjartsýni ríkti með verkefnið frá byrjun. Fyrsta skóflustunga að byggingunni var tekin sama ár og lóðin fékkst. Framkvæmdir og fjármögnun gengu hægt lengi framan af, en með elju og þrautseigju, ásamt velvilja og mikilli sjálfboðavinnu félagsmanna og fleiri einstaklinga, ekki síst framlagi fyrirtækja og félagasamtaka miðaði verkinu áfram. Fjármunir voru að auki teknir að láni í bönkum og félaginu tæmdist arfur, sem kom að góðum notum.
Það tók 9 ár að koma húsinu í það horf að hægt væri að hýsa þar óskilakisur og loks var athvarfið opnað 29. júlí 1991. Viðstaddir voru m.a. Markús Örn Antonsson, þáverandi borgarstjóri í Reykjavík og séra Guðmundur Þorsteinsson, fyrrverandi dómprófastur og sóknarprestur í Árbæjarprestakalli, sem vígði húsið.
Áfram var haldið við framkvæmdir í gegnum árin og tekin smá skref í einu eftir efnum og ástæðum.
Má geta þess að þak hússins var t.d. ekki að fullu klárað fyrr en síðastliðið sumar.
Fyrr á þessu ári var síðasta greiðsla af bankaláninu innt af hendi og húsið þar með skuldlaust. Það var stór áfangi.
Næsta verkefni er lóð og umhverfi, sem enn er ófrágengið og marga dreymir um útigerði fyrir kisurnar.
Húsið að Stangarhyl 2 er 700 m² að stærð, að hluta til á tveimur hæðum og voru útbúnar 3 íbúðir í því, sem leigðar hafa verið út til að standa undir rekstri hússins.
Í dag er rekið myndarlegt kattaathvarf, þar sem hægt er að hýsa um 60 óskilakisur í einu svo vel fari, ásamt rekstri kattahótelsins, sem tekur allt að 55 kisur í gistingu.
Athvarfið fyrir óskilakisur er oftast fullsetið, sumar kisur staldra stutt við, aðrar lengur og reynt að finna þeim heimili eftir bestu getu. Athugulir kattavinir koma oftast með kisur, sem finnast á vergangi eða hafa verið yfirgefnar af eigendum sínum. Allt of oft eru kisur vanræktar eða skildar eftir, jafnvel fleygt út þegar þær falla ekki lengur að lífsháttum eigenda. Það er sorgleg staðreynd.
Síðustu 10 árin í rekstri Kattholts hafa að meðaltali komið þangað 670 kisur á ári.
Brynjólfur Sandholt, fyrrv. héraðsdýralæknir í Reykjavík var félaginu og Kattholti mjög innan handar framan að. Það varð síðar að góðu samstarfi við Dýraspítalan í Víðidal, en læknar þaðan mæta vikulega í Kattholt.
Óhætt er að fullyrða að á þeim 25 árum, sem liðin eru frá opnun Kattholts, hafi skipst á skin og skúrir í rekstrinum. Oft hefur verið mjög á brattan að sækja. Ýmis kostnaður fellur til og er dýralæknakostnaður einn stærsti útgjaldaliðurinn, ásamt launum og launatengdum gjöldum starfsmanna. Það tók félagið ríflega 20 ár að ná samningum við öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um greiðslu lágmarks dagafjölda fyrir óskilakisur, kostnaður umfram þessa tilskildu daga fellur á Kattavinafélagið svo og kostnaður vegna katta utan höfuðborgarsvæðisins.
Styrkir af fjárlögum ríkisins hafa fengist tvisvar sinnum og eru einu styrkir ríkisins til athvarfsins. Opinber gjöld s.s. fasteignagjöld, leyfisgjöld o.fl. greiðir félagið samkvæmt lögum.
Það kostar að endurnýja búnað og annað sem til þarf og viðhald hússins er kostnaðarsamt.
Rekstur dýraathvarfs er viðkvæmur og má lítið út af bera. Mikil vinna hefur verið lögð fram af stjórnarmönnum ásamt ómetanlegri hjálp frá félagsmönnum og öðrum dýravinum.
Í dag eru 7 manns á launaskrá, en auk þeirra gegna sjálfboðaliðar mikilvægu hlutverki við umönnun kattanna.
Fjáröflun er alltaf í gangi og öll velvild sem Kattholt nýtur skiptir gríðarlega miklu máli. Þar má nefna dýravini sem leggja starfinu lið með peningagjöfum og fyrirtækjum sem gefa fóður. Páska- og jólabasarar eru fastir liðir í starfseminni, gefin eru út dagatöl og seld ásamt jólakortum og fleiri vörum. Margir gefa vinnu sína, hanna vörur tengdar kisum og krakkar halda tombólur og færa kisunum ágóðan. Það eru einkar ánægjulegar heimsóknir. Síðast en ekki síst má nefna vaska hlaupara sem undanfarin ár hafa tekið þátt í Reykjavíkurmaraþoni og safnað þannig fyrir Kattholt. Öllu þessu góða fólki þakkar félagið og kisurnar í Kattholti af alhug.
Sigríður heitin Heiðberg rak Kattholt af miklum myndarskap í tæp 20 ár, auk þess að vera formaður formaður félagsins ríflega þann tíma.
Forstöðumaður Kattholts nú er Halldóra Björk Ragnarsdóttir.
Umsjónarmaður húss og „alt mulig mand“ er Ingibergur Sigurðsson.
Á þessum tímamótum vill Kattavinafélag Íslands hvetja kattaeigendur til að sýna ábyrgð og láta gelda fressketti og taka læður úr sambandi, merkja og skrá. Með aukinni og fjölbreyttri notkun samfélagsmiðla hefur umræðan breyst mikið, orðið opnari og fólk er meira vakandi fyrir kisum í vanda. Fjölgun katta er því miður orðið stærra vandamál en svo, að eitt félag rísi undir að sinna öllum kisum sem þarfnast hjálpar. Áhugamannafélög hafa litið dagsins ljós allra síðustu ár og feta nú svipuð spor og Kattavinafélagið gerði í upphafi, og er það vel.
Félagið fagnar nýlegum lögum um dýravelferð og hvetur sveitarfélögin til að sinna skyldum sínum og opna dýraathvörf, eins og lög kveða á um.
Mynd, Kynjakettir: Marteinn T. Tausen með Emil í Kattholti og Sigríður heitin Heiðberg, fyrir utan nýopnað athvarfið.