Ábyrgt kattahald – hvatning til kattaeigenda á varptíma fugla

16 maí, 2025

Fuglavernd, Kattavinafélag Íslands, Dýraverndarsamband Íslands, Dýraþjónusta Reykjavíkur og Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn hvetja kattaeigendur að sýna ábyrgð og taka tillit til fuglalífs með því að reyna að lágmarka fugladráp katta sinna á varptíma fugla.

Værum þakklát ef fjölmiðlar gætu fjallað um hvatninguna svo hún nái til sem flestra.

Hér má finna hvatninguna og í viðhengi.

Ábyrgt kattahald – hvatning til kattaeigenda á varptíma fugla

Nú er vorið komið með tilheyrandi fuglasöng en varptími fugla er hafinn og stendur yfir frá maí fram í ágúst. Þetta er viðkvæmur tími hjá fuglunum en fjöldi fugla kemur hingað til lands í þeim tilgangi að fjölga sér.
Fuglarnir gera sér hreiður og liggja á eggjum í 2-3 vikur áður en eggin klekjast og ungarnir skríða út og gaman að fylgjast með öllu ferlinu.

Kettir eru rándýr og mikilvægt að kattaeigendur hugi að því að kettir þeirra valdi ekki fugladauða.
Til eru nokkur ráð fyrir ábyrga kattaeigendur til að reyna að minnka þann skaða sem þeirra kettir mögulega valda.

Góð ráð fyrir ábyrga kattaeigendur
Með því að halda köttunum inni yfir kvöld og nótt, u.þ.b. frá kl. 17:00 til kl. 09:00 að morgni má að miklu leyti koma í veg fyrir veiðar katta, en kettir sjá betur þegar það fer að rökkva og eiga þá betur með að veiða fugla.
Til að venja ketti á að koma inn seinnipartinn er hægt að gefa þeim eitthvað sem eigandinn veit að kisu finnst gott. Hafa þarf í huga að kettir þurfa meiri leik og athygli heima við á þessum tíma.
Þeim köttum sem eru miklar veiðiklær væri best að halda inni á varptíma fugla þar sem þeir fara jafnvel upp í hreiður til að drepa unga og geta veitt tugi fugla yfir sumartímann.

Kattakragar gefa góða raun
Rannsóknir hafa sýnt að kettir með litríka kraga drepa mun færri fugla en kettir án kraga. Fuglar koma fyrr auga á ketti með litríka kraga og eiga þá betur með að forða sér.
Bjöllur gera eitthvað gagn við að minnka veiðar katta, en lítið á við kragana. Kragana er hægt að fá á allnokkrum stöðum svo sem hjá Fuglavernd, í Kattholti, Fjölskyldu- og húsdýragarðinum, gæludýraverslunum og hjá dýralæknum.

Fuglavernd, Kattavinafélag Íslands, Dýraverndarsamband Íslands, Dýraþjónusta Reykjavíkur og Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn hvetja kattaeigendur að sýna ábyrgð og taka tillit til fuglalífs með því að reyna að lágmarka fugladráp katta sinna á varptíma fugla.

Hér má nálgast ítarefni – Heimiliskötturinn, besti vinur mannsins en ógn við fuglalíf?

Fuglavernd
Kattavinafélag Íslands
Dýraverndarsamband Íslands
Dýraþjónusta Reykjavíkur
Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn