Í Kattholti dvelja að jafnaði fjöldi óskilakatta, allt frá ungum kettlingum til aldraðra katta. Ástandið er sorglegt og má að flestu leyti rekja til ábyrgðarleysis of margra kattaeigenda.

Það hlýtur að vera öllum sönnum dýravinum áhyggjuefni hve mikill fjöldi katta er á vergangi, bæði fyrrverandi heimiliskettir og villikettir, í öllum bæjarfélögum landsins. Þessi dýr lifa oftast við hungurmörk, veik og þjáð.

Kattavinafélags Íslands hvetur því enn og aftur kattaeigendur að axla ábyrgð og fara eftir samþykktum sveitarfélaga um kattahald og að láta gelda fressketti. Ekki síður þurfa eigendur læða að sýna ábyrgð og láta taka þær úr sambandi. Með þessu tvennu er hægt að stemma stigu við offjölgun katta. Minnum jafnframt á nauðsyn þess að láta örmerkja og skrá kisurnar. Það auðveldar málin þegar þær rata ekki sjálfar heim. Höfum jafnframt í huga að það finnast ekki endalaust aðrir til að taka við ábyrgð þeirra, sem bregðast dýrunum sínum.

Kattaeigendur! Tökum höndum saman og breytum ástandinu! Sýnum ábyrgð og dýravernd í verki. Kettir eru ekki stundargaman á heimilum, heldur er það skuldbinding til margra ára að taka að sér kött. Ábyrgð er allra hagur, ekki síst kattanna.