Eitt af því mikilvægasta sem þú getur gert fyrir köttinn þinn, aðra
ketti og samfélagið er að gelda læðuna þína eða fressinn. Á Íslandi er
fjöldi katta og kettlinga í leit að nýjum heimilum, en ólíklegt er að
þau fái öll heimili. Kettirnir eru miklu fleiri en heimilin sem standa
til boða. Ein leið til að fækka heimilislausum dýrum er að draga úr
óskipulögðum gotum með ófrjósemisaðgerðum á læðum og fressum. Kettir ná
fljótt kynþroska (alveg niður í fjögurra mánaða) og þeir geta fjölgað
sér með hvaða frjóum ketti sem er af hinu kyninu.
Gelding/ófrjósemisaðgerð hefur líka marga heilsufarslega kosti í för með
sér og gerir sambúð manns og kattar betri.

 Staðreyndir um ógelda fressketti

  • Hann
    hverfur gjarnan í marga daga í senn í leit að breimandi læðu. Þetta
    eykur líkurnar á því að hann verði fyrir bíl eða týnist.
  • Óðal
    ógeldra fressa er iðulega mun stærra en geldra og eyða þeir miklum tíma í
    að fara um það. Jafnframt verja þeir svæðið sitt af mikilli hörku
    gagnvart öðrum köttum. Þeir slasast iðulega við þessi átök.
  • Högnar merkja óðöl sín oft með hlandi sem er afar lyktarsterkt.
  • Hann
    veldur því að fjöldi læða verður kettlingafullar og gjóta kettlingum
    sem verða mögulega svæfðir vegna þess að ekki finnast heimili fyrir þá.

Gelding
hefur hvorki áhrif á skapgerð né hegðun fresskattarins gagnvart
eigendanum. Við geldingu verða þó þær breytingar að fresskettir verða
ekki eins uppteknir af því að verja svæði sín eins og ógeltir kettir.
Þeir verða einnig heimakærari og lifa oft lengra og áhyggjulausara lífi
þar sem þeir þurfa ekki að berjast sífellt fyrir lífi sínu. Gelding á
fressköttum er einföld aðgerð þar sem eistun eru fjarlægð. Kötturinn fær
að fara heim samdægurs. Best er að gera verðsamanburð á dýralæknstofum
og eru stundum tilboð í gangi.