Árið 1999 fékk dóttir mín og dótturdóttir kettling sem auglýstur var í DV undir fyrirsögninni “Krúsilíusi vantar gott heimili”
Hann átti heima hjá fólki í Birtingakvísl held ég eða einhverri kvísl. Þegar þær fengu hann þá var hann svo lítill og léttur og örmjór.  Þetta var í byrjun júlí 1999.
Þær komu síðan með hann til okkar í bústaðinn okkar á Ingólfsfirði um verslunarmanna helgina.  Og þegar þær fóru þá varð hann eftir hjá mér í sveitinni.
Þá gerðist það einn góðviðrisdag að við skruppum í kaupfélagið í sveitinni og skildi ég Krúsa einan eftir heima og hafði útidyrnar hálf opnar.
Þegar við komum til baka sást Krúsilíus hvergi. Við leituðum bæði úti og inni og fundum hann hvergi nokkursstaðar. Ég var algjörlega miður mín yfir þessu. Ég var eiginlega lögst í rúmið yfirkomin af skelfingu yfir því að einhverjir ferðalangar hefðu jafnvel tekið litla krúttið með sér. Við keyrðum á næsta bæ til vinafólks okkar og ég var varla mönnum sinnandi.
Konan þar sagði við mig að þau hefðu komið við hjá okkur þegar við vorum ekki komin heim úr búðinni og þá hefði Krúsilíus verið á veröndinni hoppandi og skoppandi. Hún skildi ekkert í mér að láta svona útaf einum ketti. “Hún hefði skilið það ef það hefði verið hestur”
Þegar við komum aftur að húsinu okkar, hélt ég áfram að kalla kis kis og viti menn; kemur ekki Krúsilíus gapandi og geispandi út úr gamla fjósinu og hafði þá steinsofið þar í eina 2 klukkutíma.
Næsta ár tókum við Krúsilíus með okkur aftur á Strandirnar, þá var hann alveg fluttur til okkar á Arnarhraunið í Hafnarfirði, því dóttir okkar og dótturdóttir bjuggu þá í fjölbýlishúsi á 3ju hæð og Krúsilíus var ekki nógu ánægður þar, sérstaklega eftir að hann komst á lagið með að laumast til okkar á Arnarhrauninu. Ekkert markvert gerðist með Krúsilíus árið 2000.
En árið 2001 fórum við á Strandirnar. Þar var haldið uppá 60 ára afmæli mannsins míns Ólafs. Margt fólk kom og nokkrir tjaldvagnar og tjöld voru sett upp við húsið. Krúsilíus var órólegur og vildi helst vera þarna í útihúsi og ég færði honum mat þangað. En daginn eftir afmælisveisluna sá ég Krúsa minn hvergi. Ég leitaði um allt svæðið og spurðist fyrir á bæjunum, en enginn hafði séð hann.
Síðan líða nokkrar vikur og við komum aftur norður í sumarfrí í júlí. Fréttist þá af Krúsilíusi í Ófeigsfirði. Ég fór margar ferðir í Ófeigsfjörð án árangurs. En að lokum fór ég og 2 stelpur með tjald og viðleguútbúnað í Ófeigsfjörð. Stelpurnar voru að tjalda um kvöldið og ég gekk aðeins út í móa og kis kisaði hljóðlega, ég settist hálf leið á þúfu og eftir smá stund fer ég að heyra óspöp lágt mjálm og alltíeinu sá ég Krúsilíus framundan og það skipti engum togum að hann kom upp í fangið á mér og vildi fá strokur og kjass. Ég var yfir mig glöð að finna hann aftur. Við fórum svo með hann suður nokkrum dögum seinna og hann undi sér vel á Arnarhrauninu.
Jæja; næsta ár þ.e. 2002 fer ég enn af stað og tek Krúsilíus minn með á Strandirnar. Þegar ég stoppa eftir 6-7 klst akstur á hlaðinu á Eyri, þá hleypi ég Krúsilíusi út úr bílnum, hann hleypur undir veröndina og síðan sást hvorki tangur né tetur af honum í 3 ár eða þangað til 6. september sl. Að hann náðist í minkagildru.
Við spurðum og spurðum hvort einhver hefði orðið var við köttinn, en enginn hafði séð hann.
Ég for nokkrar ferðir í Ófeigsfjörð með kattamat og harðfisk, en án árangurs.
Ég sendi smá grein í Mogunblaðið og bað fólk á Ströndum og þar um kring að láta mig vita ef sést hefði grár köttur.  Ekkert kom út úr því, en kona ein á Hvammstanga, hringdi og benti mér á konu sem væri símamiðill, hún hefði nokkrum sinnum hjálpað sér og sínum að finna týnda ketti og týnda hluti. Ég hringdi til hennar og þá var komið að mánaðarmótum okt.nóv. 2002  Hún fann það út að Krúsilíus minn væri örugglega dáinn. Mér hálf létti við þær fréttir þó þær væru dapurlegar. En aldrei gat ég hætt að hugsa til hans, mér fannst alltaf eins og hann væri einhversstaðar á lífi.
Siðan fréttist það að sést hefði til óþekkts kattar í agni sem var sett til að laða að refi, á Reykjanesi sem er eyðijörð þarna í Árneshreppi. Þetta var árið 2003. Síðan gerist það núna í maí á þessu ári að piltur sem var að kíkja eftir mink þarna og gekk um vík sem heitir Hellisvík og er í Finnbogastaðalandi, hann sá altí einu eitthvað sem líktist mink, en reyndist þegar betur var að gáð vera köttur með hálsband. Hringdi þá vinur okkar hjóna Guðmundur í Stóru-Ávík í mig og spurði hvort þetta gæti virkilega verið kötturinn okkar. Ég get varla lýst því hvað ég varð glöð að heyra þessar góðu fréttir. Við fórum svo norður í sumarfrí 16. júlí sl.  Og byrjaði ég strax að fara með mat þarna í Hellisvíkina. Fyrstu þrjá dagana gerðist ekkert, ekki var hreyft við matnum.
En svo á fjórða degi var allt uppétið, hver einasta ögn og ílátin sleikt að innan.
Eftir þetta var farið á hverjum degi og stundum tvisvar á dag á kattaslóðir og alltaf var allt étið. Fólk var að svekkja mig með því að þetta væri ekki kötturinn heldur minkur eða tófa eða mýs. En ég hlustaði ekkert á þetta og hélt mínu striki og fékk lánaða gildru hjá Valgeir í Árnesi. Einhvernveginn tókst mínum gáfaða ketti að borða allt sem ég lét í gildruna án þess að lokið félli og lokaði hann inni. Aðeins einusinni féll lokið og líklega ofan á hrygginn á Krúsa og hann hefur bara bakkað út. 
Jæja ég var nú orðin hálf vonlaus eftir þriggja vikna árangurslausar aðgerðir við að ná kettinum mínum og ég var búin með fríið mitt og varð að fara suður án hans.
Maðurinn minn var áfram á Ströndunum og hélt áfram að fara í Hellisvíkina með kattamat.
Að lokum varð hann líka að fara suður. Öllum björgunaraðgerðum var nú hætt í bili og við brugðum okkur til Mallorka  með 3 barnabörn og áttum eina yndislega viku þar. Ólafur maðurinn minn fór síðan aftur á Strandirnar og fór að reyna að lokka Krúsa aftur í Hellisvíkina. Það gerðist ekkert fyrstu dagana, en síðan hvarf allur matur aftur og Ólafur fékk lánaða aðra stærri gildru og fór að hafa matinn í henni til að venja Krúsa á að fara þar inn og föstudagskvöldið 3. sept.  Spennti hann gildruna og fór svo á laugardagsmorguninn á kattaslóðir, fullviss um að Krúsi væri í gildrunni og hann gæti tekið gildruna og allt sem í henni var með sér suður. En ekki varð honum kápan úr því klæðinu. Jú, lokið hafði lokast en ekki sást Krúsilíus. Allur maturinn var óétinn í gildrunni.  Óskiljanlegt!
Ólafur fór suður hálf leiður, en hann spennti gildruna aftur og bað Guðmund vin okkar í Stóru-Ávík að fylgjast með henni. Svo gerist það þriðjudaginn 6. september, að Guðmundur hringir og segir að kötturinn sé í gildrunni.
Við rukum af stað á Strandirnar alveg að springa af eftirvæntingu og keyrðum í fimm og hálfan klukkutíma og vorum komin fyrir hálf ellefu um kvöldið í Stóru-Ávík.
Guðmundur hafði tekið  gildruna úr víkinni heim til sín,þó hann væri hálf hræddur við hvæsið í Krúsa. Ég hentist út úr bílnum og inn á ganginn þar var gildran og í henni var enginn annar en Krúsilíus minn sem gaf frá sér aumkunarvert væl og þefaði af fingrunum á mér sem ég stakk inn um götin á gildrunni. 
Við kvöddum nú Guðmund eftir smá kaffisopa og fórum að Eyri í Ingólfsfirði, við fórum með gildruna upp í herbergi og ætluðum varla að þora að opna hana, því margir höfðu talað um að Krúsi væri orðinn að villidýri og yrði aldrei heimilisköttur aftur.  En hann fór varlega út úr gildrunni og fór strax að lepja vatnið og borða matinn sinn og svo fór  hann í sandinn sem við höfðum fyrir hann og pissaði óskaplega mikið, því hann hafði ekkert pissað né kúkað í gilruna, bara haldið því í sér kannski í næstum sólarhring. Síðan stökk hann upp í sófan til mín og vildi fá meira klapp, nuddaði höfðinu í mig og malaði svo mikið að það hvein í honum.
Jæja næsta morgun fórum við aftur af stað suður og nú með Krúsilíus okkar lausan í bílnum, gekk ferðalagið að óskum og við vorum komin með hann á Arnarhraunið kl. 16.00
Síðan hefur Krúsilíus verið eins og engill, malar mikið og nuddar sér upp við okkur. Sefur mikið og er bara eins og hann hafi aldrei farið.
Dóttir okkar og hennar fjölskylda og öll okkar barnabörn og aðrir vinir og vandamenn hafa verið að koma og hringja og óska okkur til hamingju með “týnda soninn”
Svo hringdi tengdasonur okkar í Morgunblaðið okkur að óvörum og komu síðan tveir frá blaðinu og tóku viðtal við okkur og mynduðu. Birtist þessi frétt síðan í Mbl 8. september sl.
Lýkur hér með frásögninni af Krúsilíusi mínum.
Svanhildur kattareigandi.