Kattahótel í Reykjavík - Sigmund

Á teikningunni er Guðrún Á. Símonar óperusöngkona, sem líka var í stjórn Katta-vinafélagsins, að falast eftir gistingu hjá Svanlaugu Löve fyrir ketti sína, reyndar verulega fleiri ketti en hún hefur átt.
(Sigmund veitti Kattavinafélaginu fúslega leyfi til að birta teikninguna).

Við stofnun Kattavinafélagsins 1976 hófst sú starfsemi Kattavinafélagsins, að taka til geymslu heimilislausa óskilaketti, sem fundist höfðu á förnum vegi, og færðir voru heim til Svanlaugar formanns félagsins, sem veitti þeim þannig mat, umönnun og húsaskjól í sérstöku herbergi.

Ef eigandi gaf sig fram innan hæfilegs tímabils komst kötturinn til síns heima, en ella reyndi Svanlaug að koma honum á gott heimili. Ef það tókst ekki var dýralæknir fenginn til að svæfa köttinn á kostnað Kattavinafélagsins. Þar naut félagið vinsemdar Brynjólfs Sandholt dýralæknis, sem frá upphafl var ráðgjafi félagsins og veitti oft umbeðna aðstoð án greiðslu.

Fljótlega kom svo í ljós að þörf var fyrir þessa kattageymslu félagsins þegar kattaeigendur fóru í sumarfrí, eða urðu að fara á sjúkrahús vegna veikinda. Þá tók Svanlaug að sér að geyma heimilisköttinn á meðan. Þannig hófst í smáum stíl sú starfsemi, sem nú er rekin í húsi félagsins, Kattholti, að Stangarhyl 2 í Reykjavík.

Þessi heimavist var af gárungum nefnd Kattahótel, og var skopteiknaranum Sigmund að verkefni, eins og sjá má á hérna til hliðar.

Þessi teikning sigmunds „Kattahótel í Reykjavík” birtist í Morgunblaðinu 26. mars 1977, en þá hafði Svanlaug Löve formaður Kattavinafélags Íslands nýlega opnað vistheimili fyrir ketti á heimili sínu að Reynimel 86. Þar tók hún bæði á móti óskilaköttum, sem fundist höfðu á vergangi, og líka heimilisköttum um tíma, ef eigendur voru að heiman í sumarfríi eða á sjúkrahúsi.