1. Heiti.
Heiti félagsins er “Kattavinafélag Íslands”. Skammstafað KÍS.

2. Tilgangur.
Tilgangur félagsins er:

a) að vinna að betri meðferð katta, standa vörð um að allir kettir njóti þeirrar lögverndar, sem gildandi dýraverndunarlög mæla fyrir um og stuðla að því að allir kettir eigi sér húsaskjól, mat og gott atlæti.

b) að reka kattaathvarfið Kattholt.

c) að beita sér fyrir fræðslu og upplýsingamiðlun um góða meðferð katta.

3. Félagar.
Félagar geta allir orðið sem náð hafa 18 ára aldri hvar sem þeir eru búsettir á landinu, enda hafi þeir áhuga á dýravernd og séu kattavinir. Fullgildir félagsmenn teljast skráðir félagar sem greitt hafa árlegt félagsgjald.

4. Aðalfundur.
Aðalfund skal halda eigi síðar en 31. maí ár hvert. Í stjórn skulu vera 5 menn, formaður og 4 aðalmenn. Á hverjum aðalfundi skulu kosnir 2 aðalmenn til tveggja ára og formaður til eins árs í senn. Bæði formann og aðalmenn má endurkjósa. Auk þess skal á hverjum aðalfundi kjósa 2 varamenn í stjórn til eins árs í senn. Þá má einnig endurkjósa. Ef fleiri eru í framboði til stjórnar en þeir sem kjósa skal, skal kosningin vera skrifleg. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum á aðalfundi. Aðalfund skal boða með auglýsingu í fjölmiðli með minnst 10 daga fyrirvara.
Ný framboð til stjórnarsetu skal berast stjórn a.m.k viku fyrir boðaðan aðalfund og kynnt félagsmönnum t.d. á heimasíðu félagsins a.m.k 5 dögum fyrir boðaðan aðalfund. Kjörgengi og rétt til að greiða atkvæði á aðalfundi félagsins hafa fullgildir félagsmenn, skuldlausir um áramót næst á undan aðalfundi. Stjórn skipi framkvæmda- og fjáröflunarnefnd, 3 menn til tveggja ára í senn, stjórnarmenn eða löggilta félagsmenn. Nefndin starfi í samráði við stjórn og í umboði hennar.

5. Stjórn.
Stjórnin kýs sér sjálf meðal kjörinna aðalmanna, varaformann, ritara og gjaldkera. Til að taka löglega ákvörðun á stjórnarfundi skulu minnst 5 stjórnarmeðlimir eða varamenn vera mættir. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum. Ef atkvæði standa á jöfnu ræður atkvæði formanns úrslitum.

6. Fundargerðir.
Fundargerðir aðalfunda og stjórnarfunda skulu skráðar í fundargerðabækur og skulu þær undirritaðar af stjórnarmeðlimum. Ennfremur skal fundargerð aðalfundar undirrituð af fundarritara og fundarstjóra fundarins. Fundargerð hvers aðalfundar skal lesin upp og borin undir atkvæði á næsta aðalfundi.

7. Skoðun reikninga.
Á hverjum aðalfundi er kosinn skoðunarmaður reikninga úr röðum félagsmanna. Skal hann skoða reikninga félagsins áður en gjaldkeri fær þá frá viðurkenndum fagaðila.

8. Ársreikningur.
Reikningsárið er almanaksárið. Gjaldkeri leggur fram á stjórnarfundi ársreikning félagsins, yfirfarinn af skoðunarmanni félagsins og viðurkenndum fagaðila. Reikningar félagsins eru lagðir fram á aðalfundi til samþykktar.

9. Félagsgjöld.
Félagsgjöld skulu ákveðin á aðalfundi.

10. Greiðslur úr félagssjóði og lántökur.
Greiðslur úr félagssjóði er varða daglegan og eðlilega rekstur innir gjaldkeri af hendi. Aðrar greiðslur skulu bornar undir og samþykktar af stjórn félagsins. Lántaka af hálfu félagsins er gjaldkera óheimil nema með samþykki stjórnar.

11. Slit á félaginu og breytingar á rekstri þess.
Slit á félaginu og verulegar breytingar á rekstri þess eru því aðeins möguleg að tveir aðalfundir sem haldnir eru með eins mánaðar millibili samþykki það með 2/3 hlutum greiddra atkvæða þeirra félagsmanna sem mættir eru á báðum aðalfundunum og verið hafa í félaginu og greitt félagsgjöld árlega undanfarin 5 ár. Skal þess getið í fundarboði fyrir báða aðalfundina að þessi mál séu á dagskrá.

Ef nokkurn tímann kemur til þess að félaginu verði slitið, skulu eignir þess eingöngu notaðar í samræmi við tilgang félagsins. Síðasti aðalfundur, sem haldinn er samkvæmt framansögðu skal ákveða hvernig eignir félagsins skuli notaðar.

12. Lagabreytingar.
Til breytinga á lögum félagsins þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða á aðalfundi þeirra félagsmanna sem verið hafa í félaginu og greitt félagsgjöld árlega í undanfarin 5 ár. Tillögur að lagabreytingum skulu auglýstar fyrir aðalfund.