Áður en þú sækir kettlinginn skaltu athuga hvaða meðferð hann hefur fengið. Kettlingar geta farið frá móður sinni frá 8 vikna aldri og flestir húskettir hafa ekki verið bólusettir á þeim tíma. Ef þú ert að fá þér hreinræktaðan kettling er hann oftast ekki afhentur fyrr en við 12 vikna aldur og hefur þá að venju verið bólusettur að hluta. Fáðu upplýsingar um hvað hefur verið gert fyrir hann og þú ættir að fá afhent bólusetningarskírteini undirritað af dýralækni svo og ættbók kettlingsins. Fáðu einnig upplýsingar um hvort gefin hafi verið ormalyf og hvaða fóður kettlingurinn hefur fengið. Fóðraðu hann með sama fóðri fyrstu dagana og ef ástæða þykir til að skipta um fóður, skiptu þá hægt og rólega yfir í nýjar fóðurtegundir til að forðast meltingartruflanir eins og niðurgang og uppköst.

Hanna M Árnadóttir dýralæknir
Dýralæknastofan í Garðabæ