Dýraauðkenni.is er miðlægur gagnagrunnur sem geymir ör- og eyrnamerkingu dýra. Skrásetning er ódýr og fer fram hjá dýralækni. Dýrauðkenni kemur að góðum notum hvort sem dýrið þitt týnist eða þú finnur týnt dýr. Ef dýrið er örmerkt og skráð í miðlægan gagnagrunn kemst það yfirleitt fljótt til skila. Þegar óskilaköttur kemur í Kattholt kanna starfsmenn hvort dýrið sé ör- og/eða eyrnamerkt. Sé dýrið merkt skrá þeir númerið á merkingunni inn í gagnagrunninn. Þá koma upp helstu upplýsingar um viðkomandi dýr og hvernig hægt er að ná í eiganda þess. Sé dýrið örmerkt en ekki skráð í Dýraauðkenni getur verið flóknara að hafa upp á eiganda, því hafa þarf samband við dýralæknastofur til að komast að því hvar dýrið er skráð. Finnist eyrnamerkt dýr getur finnandi skráð inn númerið á merkingunni í gagnagrunninn og fundið upplýsingar um eiganda. Dýrið kemst þá fljótt til skila. Nánari upplýsingar um Dýraauðkenni eru á heimasíðunni dýraauðkenni.is.