Þegar köttur týnist er gott að hafa í huga:

Auglýsa sem fyrst eftir kisu með mynd og lýsingu t.d. á tölvupóstfangið [email protected], sem verður birt á heimasíðu okkar kattholt.is

  • Athuga vel hvort kisa er í felum innan dyra. Þær geta troðið sér á ólíklegustu staði, einkum ef þær eru nýkomnar á heimilið.
  • Kanna nánasta umhverfi, ganga um og kalla á kisu, t.d. seint að kvöldi eða snemma morguns. Munið, kettir þekkja raddir eigenda sinna. Hafa með þurrfóður eða kisunammi í poka og hrista. Innikisur og kisur sem týnast úr pössun á stað sem þær þekkja sig ekki á, fela sig gjarnan í næsta nágrenni, þar sem þær þekkja ekki umhverfið.
  • Leita í bílskúr eða lokaðri útigeymslu. Lýsa með vasaljósi í skúmaskot og undir og ofan í allt sem kisan gæti mögulega falið sig.
  • Settu út sandkassa kisu eða stráðu sandi úr honum á lóðina og nálægt húsinu. Einnig hjálpar að setja matardallinn út.
  • Talaðu við nágrannana og segðu þeim að kisan þín sé týnd. Biðja þá um að opna útigeymslur, bílskúra og að hafa augun hjá sér.
  • Það hjálpar líka að prenta út auglýsingu með mynd af kisu með helstu upplýsingum (s.s. lit á feldi, öðrum einkennum og merkingu (örmerki og/eða ól), hvaðan og hvenær kisa týndist og símanúmer eiganda), og dreifa í nágrenni.

    ● Spyrja krakka hverfinu, þau eru býsna glögg á kisur á ferli. Sömuleiðis hjálpar oft að tala við blað- og bréfbera. Auglýstu líka í hverfisverslun.

    ● Hafðu samband við Kattholt og dýralæknastofur, jafnvel lögreglu ef eitthvað gæti hafa hent kisuna.

    ● Hafir þú flutt nýlega eða ef kisa hverfur úr pössun þar sem hún þekkir sig ekki, er gott að setja upp auglýsingar í gamla hverfinu og tala við fyrrverandi náranna, ef ske kynni að kötturinn leiti aftur þangað.

Á heimasíðunni okkar eru myndir af öllum þeim köttum sem koma í Kattholt: Nýkomnar kisur í Kattholt
Upplýsingarnar um kettina eru settar inn samdægurs. Í Kattholti eru sérstakir skannar til að lesa eftir örmerki. Þegar óskilaköttur kemur í Kattholt er strax athugað hvort hann sé ör- og/eða eyrnamerktur. Til að auðvelda leit að eiganda skiptir sköpum að kötturinn sé skráður á dyraaudkenni.is

Auglýstu eftir týndum ketti á netmiðlum með mynd og lýsingu:

Auk heimasíðu Kattholts og Kattholti á Facebook, eru kattatengdar síður eins og: T.d. Týnd/fundin dýr, Týnd/fundin gæludýr, Dýrahjálp Íslands, Kattarsamfélagið og Kattavaktin. Á höfuðborgarsvæðinu eru margar íbúa- og hverfasíður eru á Facebook og hafa reynst mjög gagnlegar í leit að týndum/fundnum gæludýrum. Á norðurlandi er Facebooksíða Kisukots og í mörgum bæjarfélögum eru síður sem tengjast köttum. Sömuleiðis er hægt að auglýsa eftir týndum kisum á bland.is

Gangi ykkur vel!
Ferðumst aldrei með kött á milli staða öðruvísi en í öruggu ferðabúri. Munum að gelda eða taka kettina úr sambandi, því ógeld dýr eru líklegri til að fara á flakk og týnast.

Enn og aftur minnum við kattaeigendur á mikilvægi þess að örmerkja og/eða eyrnamerkja dýrin. Einnig er mjög gagnlegt að setja á þau merkta ól.