Sælar kæru kattakonur
í byrjun síðusta mánaðar fékk ég hjá ykkur Silver Shadow persa. Hann var rakaður og með sár á kinn. Eftir að hafa farið með hann til dýralæknisins fórum við heim í nýju íbúðina á þriðju hæð í Vogunum á Vatnsleysuströnd. Uppkominn sonur minn sagði strax að hann liti út eins og Elvis Presly og það nafn festist við hann og nú man ég ekki einu sinni hvað hann var kallaður í Kattholti.
Elvis skoðaði sig um í íbúðinni og lagðist svo í sófann og svaf megnið af deginum. Hann er mjög skapstór og yndislega þóttafullur. Á kvöldin kemur hann upp í rúm til mín og telur sig eiga rétt á að sofa á sama kodda og ég en eftir nokkrar fortölur lætur hann sér hinn koddan duga. Honum er ekkert vel við það ef margir koma í heimsókn og finnst greinilega að hann hafi eitthvað um það að segja hver sé hér í heimsókn og hver ekki. Þið eruð velkomnar í heimsókn í Voganna og alltaf heitt á könnunni. Takk fyrir yndislegann félaga og meðfylgjandi eru myndir af Elvis. Á efri myndinni er Elvis að fara fram á að hann fái líka það sem á boðstólunum er og á neðri myndinni er hann í fýlu vegna þess að hann fær bara sérstakt þurrfóður (er viðkvæmur í maga greyið).
Bestu kveðjur Herdís Hjörleifsdóttir