Að eignast kött getur stundum verið fyrir hálfgerða tilviljun. Fólk fellur fyrir þessum loðnu fjörboltum í gleði augnabliksins og gleymir því, að með þessum nýja heimilisvin fylgir ákveðin ábyrgð og skyldur gagnvart bæði kisunni og samfélaginu í kring. Alltof oft reynist þessi áhugi aðeins tímabundinn og kettlingurinn nær vart að verða fullorðinn áður en hann er orðinn “fyrir” á heimilinu. Mundu, að kettir geta náð háum aldri og þurfa allan tímann á umönnun og ástúð að halda. Ef þú ert ákveðinn í að fá þér kött er ástæða fyrir þig að íhuga gaumgæfilega hvaða kattategund þig langar í – snöggan eða loðinn, hreinræktaðan eða húskött o.s.frv. Það getur komið í veg fyrir vonbrigði síðar meir, t.d. hvað varðar skapgerð og þrifnað.

Hanna M Árnadóttir dýralæknir
Dýralæknastofan í Garðabæ