Góðar fréttir til félagsmanna og annarra kattavina.

Kattavinafélag Íslands hefur frá upphafi átt marga dygga stuðningsaðila, bæði einstaklinga og fyrirtæki. Má rifja það upp hér að draumurinn um athvarfið okkar Kattholt, varð að veruleika fyrir tilstilli arfs, sem félagið fékk eftir dýravin á Norðurlandi. Þetta er rifjað upp hér vegna þess að á síðasta ári fengum við tilkynningu frá lögmannsstofu í Reykjavík þess efnis, að félagið ætti von á arfi að upphæð kr. 1.000.000 eftir konu í Reykjavík, Huldu G. Böðvarsdóttur. Arfurinn hefur nú verið greiddur út og fengu þrjú önnur félög sömu upphæð, sem öll eiga það sameiginlegt að hlú að þeim sem minna mega sín. Eins og nærri má geta hugsum við hlýlega og með þakklæti í huga til Huldu. Stjórn félagsins hefur ákveðið að nota upphæðina í verkefni sem lengi hefur staðið til að ráðast í, en hefur kostað meira en ráðið hefur verið við. Þökkum um leið aðrar rausnarlegar gjafir og styrki, sem sýna hlýhug dýravina til athvarfsins. Allar gjafir og styrkir koma sér vel og styðja svo um munar við starfið í Kattholti, kisunum til heilla.

Með góðum kisukveðjum, stjórn Kattavinafélagsins.