Stjórn og starfsfólk Kattavinafélags Íslands lýsir þungum áhyggjum yfir stöðu kattamála á landinu.
Undanfarnar vikur hafa komið tugir kettlinga, margar læður með kettlinga og kettlingafullar læður í Kattholt. Að auki tugir annarra óskilakatta og eiga flestir þessara katta það sameiginlegt að finnast hér og þar á vergangi, í þéttbýli jafnt sem dreifbýli. Áberandi hefur verið að fólk skilur kisurnar sínar eftir vegalausar og fer í sumarfrí, sem er ólíðandi og óábyrg framkoma gagnvart dýri, sem setur traust sitt og elsku á eiganda sinn. Það er allt of algengt að ógeldir kettir vafri um og fjölgi sér, læður á vergangi gjóta úti og til verða villikattasamfélög.

Það fylgir því ábyrgð og skuldbinding í mörg ár/áratugi að taka að sér gæludýr.
Það felst kostnaður í að eiga gæludýr, sem gæludýraeigandi þarf sjálfur að standa straum af.
Hvorki félagasamtök á borð við Kattavinafélagið, né aðrir eiga að axla þá ábyrgð, sem hver sá sem tekur að sér dýr skuldbindur sig siðferðislega til.

Fjölgun katta er áþreifanlegt og því miður viðvarandi vandamál.
Eina leiðin til að bæta úr er að láta taka læður úr sambandi og gelda fressketti, annað brýtur í bága við samþykktir um kattahald í flestum ef ekki öllum sveitarfélögum á landinu.
Við hvetjum kattaeigendur til að bretta upp ermar og sýna ábyrga hegðun.
EKKI SEINNA EN STRAX!
Kattholt er löglegt kattaathvarf, sem er rekið er af Kattavinafélagi Íslands, með skilyrtum leyfum þar til gerðra yfirvalda
Kattholt tekur við óskilaköttum, sem oft reynast týndir heimiliskettir, en aðrir heimilislausir og er þá reynt af fremsta megni að finna þeim ný og ábyrg heimili.