Kæru Kattholtskonur ! 
Núna er Nebbi búinn að búa hjá okkur í fimm daga. Okkur líkaði ekki Nebbanafnið, og þar sem fljótlega lá fyrir að Nebbi væri mikill tónlistarköttur ( hann gaular en mjálmar ekki á hefðbundinn hátt ! ) þá ákváðum við að kalla hann Mozart. En aðalatriðið er að sambúð þeirra Flosa og Mozarts er til fyrirmyndar.
Reyndar er ekki hægt fyrir nokkurn kött eða manneskju að líka illa við Mozart, hann er svo ofboðslega geðgóður, þolinmóður og rólegur. Sannkallaður fyrirmyndar kisi. Flosi er svolítið stríðinn, hefur gaman af að dangla í skottið eða í bossann á Mozart, og einkum þykir honum skemmtilegt að hoppa yfir Mozart greyið. Mozart tekur þessu oftast með jafnaðargeði, en þegar lætin í Flosa ganga úr hófi fram þá hvæsir Mozart og jafnvel hótar að klóra. Þá dregur Flosi sig í hlé, því Mozart er stærri, sterkari og með lengri klær.
Mozart er fljótur að læra, hann þarf reyndar að læra alla kisusiði. Hann er að læra að leika sér með kisudót, var hræddur við allt dót fyrstu dagana. Svo eru önnur umhverfishljóð hér en í Kattholti, fyrstu dagana var hann sífellt að hlusta og sperra eyrun, öll þessi skrítnu hljóð trufluðu hann. Hann lærði reyndar strax á kassann sinn og borðar alveg eðlilega. Honum finnst gott að láta klappa sér, en það má ekki klóra honum á bringunni eða maganum. Honum leiðist þegar við gælum við Flosa, kemur á vettvang og lætur heyra í sér, “hér er ég, þið eigið að klappa mér, ekki þessum litla loðna kettling”. Hann er afbrýðisamur, en lætur það ekki bitna á Flosa, enda fyrirmyndar köttur. Þegar öllu er á botninn hvolft þá erum við öll mjög ánægð með Mozart, þá sérstaklega Flosi sem hefur eignast félaga og vin. Innilega takk fyrir okkur,
Guðný, Birgir og Flosi. 
ps. Mozart biður að heilsa í Kattholt og þakkar fyrir sig.